Inngangur
Ég talaði við Hrafnhildi Söru Baldvinsdóttur, 15 ára, frá Bakka í Geiradal. Ég spurði hana hvernig henni fyndist að alast upp í sveit, hvort henni fyndist munur á sér og þeim sem alast upp í þorpi og ef já þá hvernig? Hvort henni fyndist hún missa mikið af viðburðum eða hirtingum og hvað henni fyndist skemmtilegast við að búa og vera alin upp í sveit
Samantekt
Hrafnhildur Sara Baldvinsdóttir talaði aðallega um að það væri bara fínt að alast upp í sveit og maður lærði mikið af því þó svo að það sé ekki eins mikill félagsskapur.
Hvernig finnst þér að alast upp í sveit?
Mér finnst það fínt. Mér finnst maður læra að vera svolítið sjálfstæður en maður fær ekki jafn mikinn félagsskap og vinir sínir svo maður er meira með fjölskyldunni sinni.
Finnst þér munur á þér og öðrum sem alast upp í þorpi? Ef já, hvernig þá?
Maður fer ekki eins oft í búðir og þeir sem alast upp á stærri stöðum en á móti eyðir maður kannski meiru þegar maður kemst í búðir. Krakkar í sveitum eru meira úti að hjálpa til á bænum.
Finnst þér þú missa af miklu?
Já, það er ekki alltaf far heim svo maður þarf oftar að fara heim með skólabíl og nær því ekki að verða eftir til að vera með vinum sínum eða fara í félagsstarf. Svo þarf ég stundum að fara heim og passa systkini mín og missi þá af félagsstarfi og þess háttar. Í sauðburði er maður ekki mikið að fara af bænum því það er ekki eins mikið hægt að skutla og sækja.
Hvað finnst þér skemmtilegast við að búa í sveit?
Að geta verið í kringum dýrin og verið meira með fjölskyldunni í ýmsum verkefnum og störfum sem hjálpa til á bænum. Maður getur gert margt skemmtilegt úti, t.d. farið á skauta, snjósleða og svo framvegis því það er meira svæði og betra umhverfi.
Leiðist þér stundum? / Af hverju?
Já, ég er bara oft í símanum því þar er ekki alltaf eitthvað að gera í fjárhúsum. Maður kemst ekki eins oft að hitta vini og þá er ekki eins mikill félagsskapur.
Þar sem það er ekki menntaskóli í þínu sveitarfélagi, hvernig finnst þér að þurfa að fara eitthvert annað?
Það er svolítið leiðinlegt að þurfa að fara að heiman svona snemma, sérstaklega ef maður er ekki alveg tilbúinn í það. Maður reynir þó að velja einhvern skóla sem er ekki allt of langt í burtu þannig að það er auðvelt að koma um helgar og í fríum.
Þar sem það er ekki hægt að æfa neitt á Reykhólum, hvaða tómstundir eruð þið mest að gera?
Það er tónlistarkennsla í skólanum þar sem er hægt að læra á fullt af hljóðfærum og söng. Í tómstundastarfinu er alltaf íþrótt dagsins og þá er farið í fótbolta, körfubolta eða eitthvað aðra íþrótt. Það eina sem er hægt að æfa á Reykhólum er bogfimi.
Hildigunnur Sigrún Eiríksdóttir tekur viðtal.
Kommentare