Ásborg Styrmisdóttir
Ég talaði við Ásborgu Styrmisdóttur, 15 ára, úr Fremri Gufudal í Reykhólahreppi. Ég spurði hana hvernig henni fyndist að alast upp í sveit, hvort henni fyndist munur á sér og þeim sem alast upp í þorpi og ef já þá hvernig? Hvort henni fyndist hún missa mikið af viðburðum eða hittingum og hvað henni fyndist skemmtilegast við að búa og vera alin upp í sveit.
Samantekt
Ásborg talaði aðallega um að það væri skemmtilegt að alast upp í sveit og hún lærði mikið af því þó svo að það sé ekki eins mikill félagsskapur og fyrir þá sem búa í þorpinu (Reykhólum).
Hvernig finnst þér að hafa alist upp í sveit?
Mér finnst það mjög gaman þó að ég fái ekki eins mikinn félagsskap og þeir sem búa í þorpinu. Ég læri samt mjög mikið af því að búa í sveit, t.d. læri ég að gefa kindum, taka á móti lömbum og svo framvegis. Það hjálpar mér líka mikið við stressi að vera á hestum og geta farið á hestbak þegar ég vil.
Finnst þér munur á þér og öðrum sem alast upp í þorpi? /Ef já, hvernig þá?
Já, mér finnst smá munur. Til dæmis er ég ekki eins hrædd um að vera skítug og mér er alveg sama þó að það sé sveitalykt af mér. Ég er ekki eins viðkvæm fyrir lyktum eins og t.d. sveitalykt. Mér finnst ég hreyfa mig meira en krakkarnir í þorpinu, t.d. stunda ég hestamennsku og fer og hreyfi hundana mína. Svo læri ég á alls konar hluti miklu fyrr, t.d. á traktóra og bíla.
Finnst þér þú missa mikið af ýmsu?
Já, því ég bý svo langt í burtu og get því ekki verið eins oft eftir í þorpinu því það er ekki alltaf hægt að sækja mig. Svo missi ég stundum úr skóla vegna veðurs
Hvað finnst þér skemmtilegast við að búa í sveit?
Mér finnst að fá að vera í kringum dýrin vera forréttindi. Mér finnst líka gott hvað landið er hreint því það er ekki eins mikil umferð og þá ekki mikil læti og meiri friður. Svo er gaman að fá að skíra allar kindurnar svo ég fæ frábæran aðgang að lamba- og hrossakjöti.
Leiðist þér stundum? / Af hverju?
Það kemur alveg fyrir að mér leiðist en þegar mér leiðist þá finn ég mér alltaf eitthvað að gera, eins og þá fer ég á hestbak eða út með hundana mína. Frænka mín og börnin hennar og amma mín og afi minn búa svo í næsta húsi og stundum eru fósturbörn hjá þeim og ég heimsæki þau. Svo kemur líka alveg fyrir að ég liggi bara uppi í rúmi í símanum.
Þar sem það er ekki menntaskóli í þínu sveitarfélagi, hvernig finnst þér að þurfa að fara eitthvert annað?
Það er fínt að komast í burtu í framhaldsskóla en það er ekki hægt að fara hvert sem er því að það eru ekki heimavistir við alla framhaldsskóla eða húsnæði sem auðvelt er að fá. Við þurfum því að hafa það í huga þegar við förum í framhaldsskóla
Þar sem það er ekki hægt að æfa neitt á Reykhólum, hvaða tómstundir eruð þið mest að gera?
Í Reykhólaskóla er tónlistarskóli og ég er að æfa söng og læra á gítar. Við erum þrjár stelpur sem höfum verið að æfa söng saman. Svo æfi ég bogfimi hjá ungmennafélaginu og er í hestamennsku.
Hildigunnur Sigrún Eiríksdóttir tekur viðtal.
Comentários