Margrét Embla Viktorsdóttir skrifar.
Innviðafélag Vestfjarða kynnti verkefnið „Vestfjarðalínan“, metnaðarfullt átaksverkefni um bætt samgöngukerfi á Vestfjörðum, á fundi í Hörpu í tengslum við Arctic Circle ráðstefnuna. Verkefnið snýst um gerð sérstaks samgöngusáttmála sem miðar að því að lyfta samgöngum í fjórðungnum upp á viðunandi stall á næstu tíu árum.
Á fundinum var einnig opnaður upplýsingavefur verkefnisins, þar sem áhersla er lögð á heilsárstengingar milli atvinnusvæða, öruggari vegakerfi fyrir þéttbýliskjarna og láglendisveg milli Vestfjarða og höfuðborgarsvæðisins.
Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis og forsvarsmaður Innviðafélagsins, kynnti framtíðarsýnina og lagði áherslu á mikilvægi sterkrar innviðauppbyggingar. „Það er mat okkar hjá Innviðafélagi Vestfjarða að með breyttu viðhorfi og nálgun í uppbyggingu samgönguinnviða megi flýta framkvæmdum, finna leiðir til fjármögnunar og forgangsraða með sanngjörnum hætti“ sagði Guðmundur. Hann bætti við að vöxtur nýsköpunar og atvinnulífs á svæðinu, meðal annars í fiskeldi og tæknigreinum, hefur skapað mikla verðmætaaukningu undanfarin ár.
Í ræðu sinni lýsti Guðmundur því að árlegar tekjur 100 stærstu fyrirtækja Vestfjarða hafi tvöfaldast frá 2018 til 2022, úr 43 milljörðum í 92 milljarða króna. „Vilji þjóðin nýta þessa þróun áfram, er brýn þörf á samgöngubótum. Með Vestfjarðalínu yrði dregið úr aðstöðumun og svæðið gæti dafnað enn frekar.“
Hjörtur Methúsalemsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arnarlaxi, sagði á opnum fundi á Patreksfirði núna í nóvember að skýrar reglur og bættir innviðir væru lykillinn að framtíð fiskeldis á Vestfjörðum. „Við höfum tækifæri til að tvöfalda störf í fiskeldi á næsta áratug og auka skatttekjur greinarinnar úr þremur í 20 milljarða króna,“ sagði Hjörtur.
Innviðafélag Vestfjarða hefur kallað eftir því að stjórnvöld setji aukinn kraft í samgöngubætur. Guðmundur Fertram sagði á fundinum að með „breyttri nálgun“ megi flýta framkvæmdum og forgangsraða fjárfestingum með sanngjörnum hætti. Með Vestfjarðalínu yrðu framkvæmdar umfangsmiklar vegabætur, þar á meðal jarðgöng, sem myndu stytta ferðatíma, auka öryggi og draga úr viðhaldsþörf.
Heimild: Innvest.is, https://innvest.is/2024/11/26/vestfirska-efnahagsaevintyrid-fimmfaldast-a-5-arum/. bb.is, https://www.bb.is/2024/10/akall-um-betri-samgongur-a-vestfjordum/
Comments