Aðalbjörg Birna Haraldsdóttir skrifar.
Hestamannafélagið Hending á Ísafirði hefur sent bréf til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þar sem spurt er fyrir um hvernig samkomulagi frá 19. júní 2017 um uppbyggingu reiðhallar og keppnissvæðis í Engidal verði framkvæmdar. Samkomulagið gerði ráð fyrir að ljúka framkvæmdum á 6–7 árum, en félagið óskar nú skýringa á stöðu málsins.
Forsaga málsins nær aftur til ársins 2008 þegar Vegagerðin þurfti að taka land Hendingar í Hnífsdal vegna jarðgangagerðar til Bolungarvíkur. Fyrir það greiddi Vegagerðin Ísafjarðarbæ 20 milljónir króna í bætur, sem bæjarfélagið ráðstafaði til Hendingar fyrir byggingu reiðskemmu í Engidal. Hending lagði sjálft til 31 milljón króna og Ísafjarðarbær 30 milljónir króna í verkefnið.
Samkvæmt samkomulaginu var næsti áfangi framkvæmda útisvæði með keppnisvelli, lýsingu og frágangi svæðisins. Kostnaður var áætlaður 61 milljón króna á verðlagi febrúar 2018, þar af var 17 milljóna króna vinnuframlag Hendingar. Þó að öll gögn hafi verið tilbúin í janúar 2018, frestaðist undirritun samningsins, fyrst til maí og síðan fram yfir bæjarstjórnarkosningar. Málið hefur ekki verið tekið fyrir í bæjarstjórn síðan þá.
Í minnisblaði sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs, sem lagt var fyrir bæjarráð nýverið, kemur fram að seinni samningurinn hafi ekki verið samþykktur í bæjarstjórn. Hún hafi ákveðið að uppbyggingarsamningar skuli fara í gegnum Héraðssamband Vestfirðinga, en umsókn vegna reiðvallar Hendingar hafi ekki borist. Því hafi málið ekki verið tekið til afgreiðslu.
Bæjarráð svaraði erindinu með bókun þar sem fram kemur að Ísafjarðarbær telji sig hafa uppfyllt samninginn frá 2017. Áframhaldandi uppbygging reiðsvæðis í Engidal verður vísað til uppbyggingarsamninga íþróttamannvirkja, í samræmi við 5. grein samningsins. Hendingu er jafnframt bent á að umsóknir vegna uppbyggingar samninga verða auglýstar í desember.
Upprunaleg frétt er HÉR
Comments